Eggjalaus saltkaramelluís – er það kannski ekkert jólalegt?

Ég er með þríréttaða jólamáltíð í jólablaði Vikunnar. Reyndar hef ég ekki séð blaðið enn en ég geri ráð fyrir að uppskriftirnar sem ég sendi séu þar … en allavega, hér er ein þeirra. Eða hluti af einni, því eftirrétturinn var litlar súkkulaðimúffur (hey, maður þarf nú að nota tækifærið og plögga þegar maður er með bók!) með hvítri súkkulaðisósu og saltkaramelluís og það er einmitt saltkaramelluísinn sem hér kemur.

Mér finnst þessi ís einstaklega góður. Það er pínulítið vesen að gera hann en þó ekkert fram úr hófi (og þið vitið að ég er ekki mikil vesenismanneskja í matargerð) og það er eitthvað sem maður gerir fyrirfram, ekki á aðfangadag. Ég miðaði matseðilinn sem ég var með við að það þyrfti sem allra minnst að gera á síðustu stundu, er ekki mikið fyrir eitthvert ,,mamma er enn í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat“-dæmi.

Þessi eftirréttur – bæði ísinn, múffurnar og reyndar líka sósan – er alveg eggjalaus og það getur verið kostur fyrir suma.

Sko, það má alveg sleppa saltinu og gera bara venjulegan karamelluís. En það er saltið – og það er nú svosem ekki neitt óskaplega mikið af því – sem gerir hann sérstakan og alveg sérlega góðan. Svo má líka sleppa hnetunum ef því er að skipta.

IMG_7322Það sem ég notaði í ísblönduna sjálfa var 125 g sykur, 250 ml rjómi, 250 ml mjólk, 125 g rjómaostur, 2 msk ljóst síróp, 1/2 tsk fleur de sel eða Maldon-salt (helst), 1 tsk vanilluessens og 2 tsk maizenamjöl. Um að gera að taka þetta allt til áður en maður byrjar og hafa til reiðu því stundum þarf að hafa hraðar hendur.

IMG_7326Fyrst stráði ég sykrinum jafnt á botninn á víðri pönnu (eða potti) og hitaði fremur rólega þar til sykurinn var bráðinn. Það á ekki að hræra neitt fyrr en hann er byrjaður að bráðna (og ég mundi eftir því núna).

IMG_7330Þegar sykurinn er vel bráðinn og gullinbrúnn (en þó ekkert farinn að brenna) út við jaðrana má fara að ýta bráðna sykrinum með sílikonsleikju eða trésleif inn að miðju, þar sem enn er óbráðinn sykur, til að allt bráðni sem jafnast.

IMG_7332Þegar sykurinn er allur bráðinn og dökkgullinbrúnn er pannan tekin af hitanum og rjómanum og sírópinu hrært saman við smám saman – ég setti fyrst svona helminginn af rjómanum, svo sírópið og hrærði svo afganginum af rjómanum saman við smátt og smátt. Best að fara varlega, það geta komið slettur.

IMG_7335Það er ekki ólíklegt að einhverjir kekkir myndist en ástæðulaust að hafa áhyggjur, þeir ættu að hverfa við suðuna.

IMG_7342Ég hrærði svolitlu af mjólkinni saman við maizenamjölið í lítilli skál og geymdi en setti pönnuna aftur á helluna, hitaði að suðu, hrærði afganginum af mjólkinni saman við karamellublönduna og lét sjóða í 4-5 mínútur. Þá hrærði ég maizenajafningnum saman við og lét sjóða í eina mínútu.

IMG_7345Þá setti ég vanillu, salt og rjómaost út í og hrærði þar til blandan var alveg slétt. Þá hellti ég henni í skál og kældi hana vel (það má flýta fyrir með því að setja skálina ofan í aðra skál með köldu vatni eða klakamolum).

IMG_7349Á meðan ísblandan kólnaði léttristaði ég 35-40 g af pekanhnetum í 1 msk af smjöri á pönnu (passa að þær brenni ekki), kældi þær svo og grófbrytjaði.

Svo blandaði ég meirihlutanum af hnetunum saman við kalda ísblönduna (geymdi nokkrar til skreytingar), setti hana svo í ísvélina og frysti. Það má líka frysta hana í skálinni en þá er gott að hræra tvisvar eða þrisvar í á meðan ísinn er að frjósa.

IMG_8030Það eru komin jól …

Saltkaramelluís með pekanhnetum

125 g sykur

250 ml rjómi

2 msk ljóst síróp

250 ml mjólk

125 g rjómaostur

½ tsk salt, helst fleur de sel eða Maldon-salt

1 tsk vanilluessens (eða dropar)

2 tsk maizenamjöl

40 g pekanhnetur, léttristaðar á pönnu í 1 msk af smjöri

9 comments

  1. Ég get staðfest að þetta er ofboðslega góður ís, sá allra besti sem ég hef smakkað! Og ég er ekki að ýkja. Fékk hann reyndar hnetulausan (sjúkk) hjá Nönnu vegna mikils hnetuógeðs.
    (Og Nanna, blaðið er á leiðinni til þín í pósti)

  2. Ég gerði saltkaramellusósu um daginn en Maldonsaltið bráðnaði ekki alveg og var í kögglum. Það var hroðalegt. (ókei gat reyndar veitt þá upp úr en beit í einn. Ekki gott). Á örugglega eftir að prófa þennan ís, kolféll fyrir saltkaramellu í París í sumar.

  3. Það hlýtur að fást í einhverjum sælkerabúðum, minnir að ég hafi séð það í Kokku til dæmis. En þetta sem ég notaði færði Parísardaman mér einhverntíma.

  4. Hæhæ 🙂 er nauðsynlegt að eiga ísvél við gerðina á þessum ís? Mér finnst hann hljóma frábærlega 🙂

    • Sæl. Nei, ég segi einmitt þarna ,,Það má líka frysta hana í skálinni en þá er gott að hræra tvisvar eða þrisvar í á meðan ísinn er að frjósa.“ Þetta með að hræra á meðan ísinn er að frjósa er gert til að koma í veg fyrir að ísnálar myndist í honum. En ef þú hefur ísinn aðeins fituríkari (sleppir mjólkinni en ntoar meiri rjóma í staðinn) er það óþarft.

Færðu inn athugasemd