Rúgbrauð og tólg – eða ekki

Ég baka nú ekkert oft rúgbrauð – ekki síst vegna þess að þegar mig langar í/vantar rúgbrauð langar mig í það strax og það gengur nú ekki upp þegar heimabakað rúgbrauð er annars vegar. Jú, auðvitað má geyma það í frysti en það er samt alltaf best nýbakað.

En nú var ég að lesa að von væri á mikilli hækkun á kornverði og þar með brauðverði; ég baka mestallt hveitibrauð sjálf og líklega best að fara að eiga rúgbrauð í frystinum. Svo að ég ákvað að baka einn skammt og gera um leið samanburð á að baka í lokuðu formi og í mjólkurfernu.

Annars rifjaðist upp fyrir mér grein um dýrtíðarmál og fátækrafæði sem birtist í Morgunblaðinu árið 1917, þegar mikill vöruskortur ríkti og matvæli voru mjög dýr. Þar var fullyrt að með því að borða 900 grömm af rúgbrauði og 80 grömm af tólg á sólarhring (smjörlíki ef tólg var ófáanleg) fengi maður öll þau næringarefni sem þyrfti. Ég er reyndar ekki alveg viss um að næringarfræðingar nútímans myndu skrifa undir það. En að vísu er viðurkennt í greininni að enginn mundi taka upp þetta mataræði til lengdar nema talsverð neyð knýi til. Og þegar maður les svona hluti verður einhvernveginn frekar lítið úr krepputali nútímamanna.

En hvað um það; ég bakaði rúgbrauð af því að mig langaði í það. Og sleppti tólginni alveg og líka smjörlíkinu, sem ég fékk oft á rúgbrauðið mitt þegar ég var krakki; þykk rúgbrauðssneið með smjörlíki og rabarbarasultui, það þótti mér gott.

Image

Ég byrjaði á að mæla 650 ml af AB-mjólk (mætti eins vera súrmjólk) og 225 g af ljósu sírópi. Mér finnst langþægilegast að mæla sírópið með því að hella því út í mjólkina, þá er mun auðveldara að hella því úr mælikönnunni en ef því er hellt beint í hana, þá klístrast það svo við (líka má pensla könnuna að innan með olíu en það er auðveldara svona).

 Image
Svo tók ég hrærivélarskál og setti í hana 375 g rúgmjöl, 200 g heilhveiti, 2 tsk af matarsóda, 1 tsk af salti og AB-mjólkur- og sírópsblönduna.
Image
Hrærði þetta vel saman og athugaði þykktina; deigið á að vera aðeins þykkara en þykkfljótandi, svo að maður hellir því ekki beint í formin, heldur mokar því með skeið. Ef það er of þunnt má bæta við aðeins meira mjöli, ef það er of þykkt svolítilli AB-mjólk eða jafnvel bara vatni.
Image
Helminginn af deiginu setti ég í léttsmurt paté-form með loki – það má vera rétt rúmlega hálffullt en ekki meira en það.
Image
Og hinn helminginn í mjólkurfernu. Svo setti ég bæði formið og fernuna (lóðrétta) á grind á neðstu rim í 95°C heitum ofni og bakaði brauðið þangaðtil ég vaknaði í morgun, eða í um 9 klukkutíma.
Image
Brauðið sem bakað var í forminu gat bara lyft sér í eina átt og það var þéttara í sér og kannski örlítið þurrarar en hitt. Brauðið úr fernunni gat þanist dálítið út í allar áttir og var því svolítið loftmeira og lausara í sér. En bragðið var nánast alveg það sama, þó fannst mér brauðið úr forminu örlítið bragðmeira – en kannski var bragðið bara samþjappaðra.
Image
Maður er nú ekkert að borða nein ósköp af rúgbrauði, það gæti haft slæm áhrif á umhverfið … En mikið ósköp er það gott svona nýbakað.

3 comments

  1. […] Rúgbrauð : Dark, dense and sweet rye bread which was made traditionally by putting the dough in wooden casks which were buried near hot springs. This is also called thunder bread as the over consumption of this dark baked good causes flatulence. The post in the source includes an excellently pictured recipe. Source – nnarognvaldar […]

Færðu inn athugasemd