Jólin 2013 undirbúin

Ég byrjaði á jólabakstrinum í gær. Og kláraði hann í dag, var ég nærri búin að segja en nei, það er nú ekki rétt – ég kláraði aftur á móti að baka þessa einu köku í dag. Þetta var nefnilega ávaxtakakan sem ég er búin að baka næstumþví á hverju ári í mörg mörg ár.

Ég veit að fólk hefur afar misjafnar skoðanir á ávaxtakökum og sjálf er ég ekki endilega hrifin af þeim, nema þessum sem ég baka sjálf; mér finnst þær oft of kryddaðar, of sætar eða bara of-eitthvað. En það er aldrei of mikið af ávöxtum og hnetum í þeim. Neinei. Mínar ávaxtakökur eru aðallega ávextir og hnetur og deigið er eiginlega bara til að halda þeim saman. Ég krydda þær aldrei (nema með áfengi), vökva þær duglega og geymi þær og læt þær þroskast í allt upp í fjórtán mánuði.

Reyndar baka ég yfirleitt tvær kökur, aðra til að borða um næstu jól, hina til að borða um þarnæstu – og það eru því gjarna tvær kökur á jólaborðinu og fólk getur valið hvorn árganginn það vill. Yfirleitt baka ég kökurnar í lok október eða fyrri hluta nóvember en það hefur þó komið fyrir að ég hef gleymt mér alveg þangað til í desember – það er allt í lagi líka. Kökurnar eru vel ætar þótt þær séu til þess að gera nýbakaðar – ég tala nú ekki um ef maður á svo líka vel þroskaða köku frá fyrra ári …

En ég gleymdi mér ekkert núna og byrjaði í gær. Það þarf nefnilega að leggja ávextina og hneturnar í bleyti yfir nótt (eða í tæpan sólarhring í þessu tilviki).

Það er býsna misjafnt frá ári til árs hvað fer í kökuna, bara það sem ég á til eða langar til að hafa hverju sinni. Núna var það: 400 g apríkósur, 200 g gráfíkjur, 100 g þurrkuð trönuber, 200 g pekanhnetur, 100 g heilar möndlur, 200 g stórar rúsínur (ekki á myndinni) og 300 g saxaðir sultaðir ávextir. Semsagt 1,5 kíló í allt. – Það er uppskrift að svona ávaxtaköku í Jólamat Nönnu en það er töluvert minni skammtur, ætli það séu ekki svona 800 grömm.

Ég skar gráfíkjurnar og apríkósurnar niður og blandaði svo öllu saman.

Ég setti svo allt saman í skál og hellti 250 ml af Calvados yfir. – Ég hef ekki notað Calvados áður, oft brúnt romm, koníak og ýmislegt annað. Ef maður vill ekki áfengi og ætlar ekki að vökva kökuna og geyma er alveg hægt að nota t.d. eplasafa.

Ég lét þetta svo standa á eldhúsbekknum til næsta dags og hrærði í öðru hverju.

Ég hitaði svo ofninn í 160°C og hrærði saman 250 g af smjöri og 125 g af sykri. Hrærði svo 5 eggjum saman við, einu í senn, og blandaði 250 g af hveiti og 1 1/2 tsk af lyftidufti saman við. – Í uppskriftinni í Jólamat Nönnu, sem er mun minni eins og ég sagði, eru 150 g smjör, 75 g sykur, 3 egg, 150 g hveiti og 1 tsk lyftiduft.

Svo blandaði ég deiginu saman við ávextina (í stærstu skálinni minni því ég sá í hendi mér að hvorki hrærivélarskálin né ávaxtaskálin dygðu til). Ávextirnir höfðu drukkið í sig allt Calvadosið en annars hefði ég bara hrært því saman við.

Ég setti um það bil helminginn af deiginu í stórt jólakökuform. – Þetta er viðloðunarfrítt form en ég set reyndar alltaf renning af bökunarpappír í botninn svo öruggt sé að ekkert festist við. Svo raðaði ég nokkrum pekanhnetukjörnum ofan á en þeim má sleppa.

Venjulega set ég afganginn af deiginu í eitt kringlótt form en núna ákvað ég að setja það frekar í fimm lítil form. Svo setti ég allar kökurnar í ofninn á neðstu rim í ofninum.

Litlu kökurnar voru tilbúnar eftir um 45 mínútur.

Stóru kökuna bakaði ég í um 1 klst 20 mínútur. Hún varð aðeins of dökk að ofan kannski (ekki þó eins dökk og á myndinni) og ég hefði líklega átt að breiða álpappír yfir formið þegar ég tók minni kökurnar út og jafnvel lækka hitann í 150°C. En jæja, hún var ekkert brunnin svosem (það getur þó verið að ég taki einhverjar af pekanhnetunum af og setji aðrar í staðinn). Svo dreypti ég 2 msk af Calvados yfir hana á meðan hún var heit (og bæti við áður en ég pakka henni inn á eftir).

En mig langaði náttúrlega að smakka og þá var heppilegt að ég hafði bakað nokkar litlar kökur.

Jú, hún var bara alveg ágæt. Og verður betri þegar ég er búin að dreypa í hana Calvadosi vikulega fram að jólum.

Ég tala nú ekki um jólin 2013. – Ég notaði tækifærið og náði i kökuna (reyndar ekki heil kaka, bara biti) sem var eftir frá í fyrra, vafði umbúðirnar utan af henni og vökvaði hana með dálitlu rommi. Hún hafði staðið alveg óhreyfð í ísskápnum frá því um síðustu áramót, eða í 10 mánuði, en nú verður hún vökvuð nokkrum sinnum fram að jólum.

Smáviðbót um þroskun og geymslu á ávaxtaköku:

Ég vökva kökurnar fyrst á meðan þær eru heitar og svo aftur þegar þær eru kaldar, um leið og ég bý um þær. Mér er sagt að best af öllu sé að vefja um þær klút (grisju, viskastykki eða eitthvað slíkt) vel bleytt í sama áfenginu og maður notar í vökvunina. En ég læt nægja að setja kökurnar á bökunarpappírsörk, vökva þær vel, vefja pappírnum vandlega utan um og vefja svo álpappír eða plastfilmu þar utan um eða setja þær í loftþétta dós. Allavega ekki vefja álpappír beint utan um þær (ég gerði það einu sinni, álpappírinn var byrjaður að leysast upp og ganga í samband við kökuna þegar ég athugaði hana um haustið).

Ég læt kökurnar standa við stofuhita innpakkaðar í allavega viku og helst lengur, mér finnst þær ekki þroskast almennilega ef þær eru settar beint í kæli. Þar sem ég bjó áður var ég með kalda geymslu (hún var reyndar ekki mjög köld á sumrin) og hafði kökunar bara þar; núna set ég kökur sem eiga að geymast til næsta árs í ísskápinn, allavega frá jólum fram á haust.

Það má líka frysta þær. En þær þroskast nú ekki mikið á meðan.

4 comments

    • Já, það kannast ég við, svona deig vill oft mærna. Það jafnar sig nú oftast þegar hveitið kemur út í en þótt deigið sé ekki alveg slétt gerir það ekkert til í svona köku.

Færðu inn athugasemd